Lög Hugpró

Lögin voru uppfærð samkvæmt samþykktum frá aðalfundi 22. mars 2023.

KAFLI I – NAFN OG TILGANGUR

1.gr – Nafn:  Nafn félagsins skal vera Félag íslenskra hugbúnaðarprófara.
Þetta er ófjárhagslegur félagsskapur sem heyrir undir íslensk lög. Heimili félagsins og varnarþing er að Skógarlundur 9, 210 Garðabær.

2.gr – Tilgangur: Félag íslenskra hugbúnaðarprófara er stofnað til að: 

  • Sjá um alþjóðleg, viðurkennd próf fyrir hugbúnaðarprófara
  • Auglýsa hugbúnaðarprófanir sem fag
  • Stofna samfélag hugbúnaðarprófara á Íslandi

KAFLI II – FÉLAGSAÐILD

1.gr – Réttur til aðildar: Félagsaðild skal vera opin öllum sem hafa áhuga á hugbúnaðarprófunum sem atvinnugrein og eru búsettir á Íslandi. 

2.gr – Félagsgjöld: Árgjald félagsins skal vera 3000 ISK. Félagsgjöld skulu innheimt árlega. Ákvörðun um breytingu á félagsgjaldi skal vera tekin fyrir á aðalfundi og samþykkt af meirihluta félagsmanna. 

3.gr – Atkvæðisréttur: Sérhver félagi hefur atkvæðisrétt á árlegum aðalfundi félagsins. 

4.gr – Úrsögn:  Sérhver félagi getur sagt sig úr félaginu með því að skrifa úrsagnarbréf til stjórnar. Greiði félagsmaður ekki félagsgjald sitt í tvö ár er stjórn félagsins heimilt að skoða slíkt sem úrsögn úr félaginu, en áður en til þess kemur skal stjórnin senda viðkomandi áskorun um greiðslu ógreiddra félagsgjalda. Óski félagsmaður þess að segja sig úr félaginu skal hann gera það skriflega til stjórnar. Félagi getur misst félagsaðild ef tillaga um það er lögð fyrir á aðalfundi og samþykkt af meirihluta. 

5.gr – Eignarréttur; Áunnin réttindi:  Félagar hafa engan eignarrétt á félaginu. Enginn félagsmaður hefur áunnin réttindi, rétt eða forkröfu á eignum eða innkomu félagsins. 

KAFLI III – FÉLAGSFUNDIR

1.gr – Almennir fundir: Almennir fundir skulu haldnir á hverjum ársfjórðungi. Stjórn félagsins sér um að auglýsa tíma og staðsetningu. 

2.gr – Aðalfundir: Aðalfundir félagsins skulu vera árlegir og haldnir í febrúar. Stjórn félagsins sér um að auglýsa tíma og staðsetningu. Á aðalfundi skal fara yfir ársskýrslu, kjósa stjórnarmeðlimi, fara yfir skýrslu um atburði liðins árs, og setja stefnu fyrir næstkomandi ár. Tillögur að breytingu á samþykktum félagsins skulu berast 2 vikum fyrir aðalfund. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir: 

  1.       Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2.       Skýrsla stjórnar lögð fram
  3.       Reikningar lagðir fram til samþykktar
  4.       Lagabreytingar
  5.       Ákvörðun félagsgjalds
  6.       Kosning stjórnar
  7.       Önnur mál

3.gr – Sérstakir fundir: Stjórnarformaður eða meirihluti stjórnar geta boðað til sérstaks fundar. Einnig geta 10% félagsmanna boðað til sérstaks fundar ef undirskriftarlisti er fyrir hendi.

4.gr – Fundarboð: Fundarboð sérhvers fundar skal senda hverjum félagsmanni með tölvupósti, ekki síðar en 2 vikum fyrir fund. 

5.gr – Kosning: Öll mál sem þarfnast kosningar teljast samþykkt ef einfaldur meirihluta fundarmanna greiðir þeim atkvæði.

KAFLI IV – STJÓRN 

1.gr – Hlutverk, stærð og laun stjórnar: Stjórnin er ábyrg fyrir stefnumótun félagsins, og deilir ábyrgð daglegra starfa til nefnda félagsins. Stjórnin skal hafa mest 7 meðlimi, en ekki færri en 3. Stjórnarmeðlimir þiggja engin laun fyrir störf sín. Stjórnarmeðlimir fá að taka eitt ISTQB próf sem boðið er upp á, á vegum Félags íslenskra hugbúnaðarprófara, sér að kostnaðarlausu á hverju kjörtímabili (sjá kafla IV, 2.gr). Stjórnarmeðlimir skulu vera fullgildir félagsmenn.

2.gr – Tímabil: Allir stjórnarmeðlimir skulu starfa hið minnsta í samfleytt 2 ár, en þeir mega bjóða sig fram aftur og starfa áfram í allt að 10 ár. 

3.gr – Fundir og fundarboð: Stjórnin skal funda a.m.k. ársfjórðungslega, að samþykktum fundarstað- og tíma. Meirihluti stjórnarmeðlima skulu vera mættir svo að fundurinn teljist gildur.

4.gr – Kosning til stjórnar: Nýir stjórnarmeðlimir og núverandi skulu vera kosnir og endurkosnir af félagsmönnum á aðalfundi. Félagsmenn sem bjóða sig fram í stöðu formanns og/eða ritara skulu vera með ISTQB Foundation Level Certification Tester (CTFL) vottun. Stjórnarmeðlimir eru samþykktir ef einfaldur meirihluti félagsmanna kýs þá á aðalfundi. 

5.gr – Framkvæmd kosninga: Stjórn félagsins er ábyrg fyrir tilnefningu nýrra stjórnarmeðlima. Aðeins fullgildir félagsmenn geta fengið tilnefningu. Sérhver félagsmaður getur tilnefnt fulltrúa til stjórnar. Tilnefningar skulu sendar til stjórnar a.m.k. 2 vikum fyrir fund. 

6.gr – Stjórnarstöður og skyldur: Í stjórn skulu vera 3 stöður; formaður, ritari og gjaldkeri. Skyldur þeirra eru: 

Formaður er framkvæmdastjóri félagsins undir eftirliti annarra stjórnarmeðlima. Formaður skal skipuleggja reglulega stjórnarfundi, og stýra þeim. 

Ritari er ábyrgur fyrir skráningu ákvarðana stjórnarinnar, þar með talið fundargerðir, fundarboð, dreifingu fundargerða og dagskrá funda. Ritari ber ábyrgð á varðveislu skráningarinnar. 

Gjaldkeri leggur fram skýrslu á hverjum fundi. Gjaldkeri  heldur utan um innkomu og útgjöldum félagsins og ber ábyrgð á að allar upplýsingar um það séu opinberar öllum félagsmönnum.  Gjaldkeri heldur utan um lista félagsmanna.

7.gr – Laus staða: Ef laus staða í stjórn kemur upp á miðju kjörtímabili skal ritari fá tilnefningar um nýja stjórnarmeðlimi frá öðrum stjórnarmönnum 2 vikum fyrir stjórnarfund. Þessar tilkynningar skal senda út sem dagskrárlið til kosningar með fundarboðinu. 

8.gr – Úrsögn, uppsögn og fjarvera: Úrsögn úr stjórn skal vera skrifleg og send til ritara. Stjórnarmaður skal fá uppsögn vegna mikillar fjarveru, þ.e.a.s. ef stjórnarmaður er fjarverandi oftar en tvisvar á einu ári án sérstakrar ástæðu. Stjórnarmaður getur fengið uppsögn af annarri ástæðu ef meirihluti stjórnarmanna samþykkir. 

9.gr – Sérstakir fundir: Sérstakir stjórnarfundir skulu haldnir ef stjórnarformaður eða meirihluta stjórnar krefst þess. Fundarboð sérstakra funda skal sent af ritara til sérhvers stjórnarmeðlims með a.m.k. 2 vikna fyrirvara.

KAFLI V – NEFNDIR

1.gr – Myndun nefnda: Stjórnin getur myndað nefndir ef þess þarf. Stjórnin ákveður nefndarmenn og tilgang nefnda. 

KAFLI VI – ÁKVÖRÐUN UM REKSTUR FÉLAGSINS

1.gr – Slit félagsins: Ákvörðun um slit félagsins skal taka fyrir á aðalfundi með ⅔ atkvæða og renna eignir þess til Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.

2.gr – Rekstrarafgangur félagsins: Rekstrarafgangi félagsins skal varið til að styðja við tilgang félagsins.